Þjónusturammi heimahjúkrunar á HVE

Þjónusturammi heimahjúkrunar

Hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar annast alla þá hjúkrun, líkamlega og andlega sem við á og hægt er að framkvæma við þær aðstæður sem heimilið og annar aðbúnaður býður upp á. Stefnt er að því að gera skjólstæðinginn eins sjálfbjarga og óháðan og unnt er, innan þeirra marka sem sanngjarnt má telja miðað við heilsu og líkamsþrek. Hjálpin á með öðrum orðum að vera hjálp til sjálfshjálpar.

Þjónustan er veitt einstaklingum sem búa innan þjónustusvæðis HVE og að mati læknis eða hjúkrunarfræðings þurfa á heimahjúkrun að halda vegna heilsubrests, skertrar færni eða þurfa sérhæfða hjúkrun vegna alvarlegra veikinda.

Heimahjúkrun HVE sinnir að undangengnu mati: 

  • Einstaklingum sem þurfa stuðning, eru t.d. óöruggir og/eða kvíðnir, en að mestu sjálfbjarga. Fræðsla, forvarnir, heilsuefling, eftirlit með almennri líðan og lyfjaeftirlit eru aðalþættir meðferðar. Ástæða beiðni er oft þörf fyrir stuðning, lyfjaeftirlit og/eða böðun.
  • Einstaklingum sem þarfnast sérhæfðrar hjúkrunar. Aðalþættir meðferðar eru sárameðferð, sérhæfð lyfjameðferð og annað sem krefst sérhæfingar í hjúkrun.  Að auki er eftirlit með blóðþrýstingi, blóðsykursmælingum, súrefnisvélum, svefnvélum, nýrnavélum og öðrum búnaði. Ástæða beiðni er þörf fyrir sérhæfða hjúkrun.
  • Einstaklingum sem þarfnast víðtækrar hjúkrunar daglega eða oft á dag vegna langvinnra sjúkdóma s.s. heilabilunar, geðfötlunar, líkamlegrar skerðingar eða eru deyjandi. Stuðningur við einstaklinginn og aðstandendur ásamt skipulagi og framkvæmd  þeirrar hjúkrunar sem þörf er á hverju sinni eru aðalþættir meðferðar. Ástæða beiðni er þörf fyrir heildræna hjúkrunarmeðferð og/eða líknandi meðferð vegna langvinns sjúkdóms.

Heimahjúkrun er tímabundin og veitt á meðan þörf er á faglegri hjúkrunarþjónustu. Gert er ráð fyrir að þjónustan hætti þegar meðferð lýkur, heilsufarsleg vandamál hafa verið leyst eða þeim komið í viðunandi horf. Skal þá útskrifa sjúkling. Heimahjúkrun byggir á fyrirfram skipulögðum vitjunum og felur hvorki í sér bráðaþjónustu, fasta viðveru eða yfirsetu né sinnir hún heimilisstörfum eða útréttingum fyrir þá sem hún þjónar.

Þjónusta heimahjúkrunar er aðallega veitt á dagvinnutíma en einnig á öðrum tímum þar sem þörfin er brýn og því verður við komið. Þeir sjúklingar sem búa afskekkt eiga rétt eins og aðrir íbúar til þjónustu en er metið í hverju tilviki fyrir sig.

Ef nauðsynlegt er af einhverjum ástæðum að draga úr þjónustu af óviðráðanlegum orsökum t.d. vegna verkfalla, eða ófærðar skal miða forgangsröðun við framantalið þannig að síst falli niður þjónusta hjá þeim sem eru í þriðja hópnum.

Þjónusta heimahjúkrunar er háð fjárhagsáætlun HVE hverju sinni.

Umsókn um heimahjúkrun og mat á þörf fyrir þjónustu
Umsókn um heimahjúkrun getur borist frá einstaklingi, aðstandenda, hjúkrunarfræðingum, læknum eða sjúkrastofnunum, hvort heldur sem er símleiðis eða bréfleiðis.
Eftir að umsókn hefur borist til heimhjúkrunar hefur hjúkrunarfræðingur samband innan 72 klst. Ef unnt er að veita þjónustu kemur hjúkrunarfræðingur í fyrstu vitjun, metur hjúkrunarþörf út frá einstaklingsbundnu heilsufars-og hjúkrunarmati og þjónustan síðan skipulögð í samvinnu við einstakling, aðstandendur og lækni ef þess er þörf.

Upphaf þjónustu
Heimahjúkrun gefur sér allt að 72 klst fyrirvara á fyrstu vitjun til nýrra þjónustuþega. Tekið skal fram að ef beiðni berst eftir kl. 12 fyrir almennan frídag t.d. á föstudegi er ekki hægt að tryggja þjónustu fyrr en næsta virka daga á eftir.

Í sumum tilvikum er þörf á sérstökum ráðstöfunum áður en heimahjúkrun hefst. Hér er t.d. átt við ef gera þarf breytingar á húsnæði eða fyrirkomulagi á heimili, eða öflun hjálpartækja.

Lyf
Lyfjatiltekt og heimsending lyfja er á vegum lyfjabúða. Starfsmenn heimahjúkrunar sjá um lyfjaeftirlit og lyfjagjöf hjá þeim sem þess þurfa. Æskilegt er að á heimili sjúklings sé að finna læstan lyfjaskáp þar sem geyma má lyf á milli lyfjagjafa. Sé lyfjagjöf breytt þarf alltaf skriflega beiðni frá lækni.

Breytingar á högum
Fari einstaklingur að heiman eða aðrar breytingar verða á högum hans sem heimahjúkrun þarf að vita um, verður einstaklingur eða aðstandandi að tilkynna það. Ef ekki er svarað við vitjun er haft samband við ættingja sem þurfa að ganga úr skugga um að allt sé í lagi.

Samstarf
Starfsfólk heimahjúkrunar leggur áherslu á samvinnu við annað starfsfólk heilsugæslunnar sem og annarra heilbrigðisstofnana, sérstaklega hvað varðar framvindu heimahjúkrunar, breytingar á meðferð og upplýsingar sem hafa áhrif á líðan. Heimahjúkrun vinnur einnig í náinni samvinnu við félagslega heimaþjónustu og þá aðila sem sinna öldrunarþjónustu á svæðinu.

Heimahjúkrun sinnir ekki þeim störfum sem lög um félagsþjónustu nr. 40 27. mars 1991 VII. kafli 25.gr. kveður á um, en þar segir:
Sveitarfélag skal sjá um félagslega heimaþjónustu til handa þeim sem búa í heimahúsum og geta ekki séð hjálparlaust um heimilishald og persónulega umhirðu vegna skertrar getu, fjölskylduaðstæðna, álags, veikinda, barnsburðar eða fötlunar.
Né heldur þeim störfum sem lög um málefni fatlaðra nr. 59 2. júní 1992, X. kafli liðveisla 25.gr. fjalla um en þar segir m.a.: "Í sérstökum tilvikum skal veita fötluðum einstaklingum frekari liðveislu sem felur í sér margháttaða aðstoð við ýmsar athafnir daglegs lífs, enda sé hún nauðsynleg til að koma í veg fyrir dvöl á stofnun".
Litið er á fatlaða sem "heilbrigða einstaklinga" sem ekki þurfa sérhæfða þjónustu heimahjúkrunar fyrr en veikindi eða heilsubrestur steðjar að.

Vinnuumhverfi
Í lögum nr. 46 frá 28. maí 1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, merkir vinnustaður það umhverfi innanhúss eða utan, þar sem starfsmaður hefst við eða þarf að fara um vegna starfa sinna. Þar skal fyllsta öryggis gætt og góður aðbúnaður tryggður.
Vinna starfsmanna í heimahjúkrun fer fram á einkaheimilum og þarf skjólstæðingur eða umbjóðandi hans að fallast á að aðstæður séu þannig að áðurnefndum atriðum sér fullnægt. Það getur þýtt að útvega þarf hjálpartæki á heimilið. Þar sem heimili sjúklinga er jafnframt vinnustaður starfsfólks er farið fram á að ekki verði reykt á meðan þjónustan er veitt og að gæludýr lokuð af sé þess óskað.

Öryggi
Skapist þær aðstæður inni á heimili að öryggi skjólstæðings eða starfsfólks heimahjúkrunar sé ógnað svo sem vegna óreglu eða ofbeldis þarf tafarlaust að gera viðeigandi ráðstafanir. Í slíkum tilfellum getur þurft að fresta umönnun á meðan leitað er eftir þeirri ráðgjöf og aðstoð sem við á. Stuðst er við áhættumat vinnueftirlits ríkisins.

Trúnaður og þagnarskylda
Starfsmönnum heimahjúkrunar ber að hafa í heiðri trúnað í samskiptum við sjúklinga og gæta þagmælsku um atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu skv. 12 gr. í lögum um réttindi sjúklinga nr. 74/1997 og 18. gr. laga nr. 70/1996 um þagnarskyldu starfsmanna.

Kvartanir og athugasemdir vegna þjónustu
Skv. lögum um réttindi sjúklinga nr. 74/1997 er sjúklingum bent á að beina athugasemdum vegna þjónustu heimahjúkrunar til framkvæmdarstjórnar HVE. Vilji sjúklingur kvarta yfir meðferð getur hann beint kvörtun sinni til landlæknis samkvæmt lögum um landlækni nr. 41/2007 12. gr.


Samþykkt af framkvæmdastjórn HVE 18. janúar 2017