Saga - HVE Hvammstangi

Saga heilbrigðisstofnunarinnar á Hvammstanga

HVE Hvammstanga skiptist í  heilsugæslusvið og hjúkrunarsvið og þjónar Hvammstangalæknishéraði sem er Húnaþing vestra og Bæjarhreppur í Strandasýslu. Fjöldi íbúa er u.þ.b. 1250.
Heilsugæslustöðin veitir almenna heilsugæsluþjónustu fyrir íbúa heilsugæsluumdæmis Hvammstanga.
Á sjúkrahúsinu eru nú (2010) 18 hjúkrunarrými og 2 sjúkra- og bráðarými. Einnig er boðið upp á dagþjónustu fyrir eldra fólk í héraðinu.
Starfsmenn HVE Hvammstanga eru í kringum 45 talsins

Úr sögu sjúkrahúss og heilsugæslustöðvar á Hvammstanga
Björn G Blöndal var fyrsti héraðslæknir í Miðfjarðarlæknishéraði sem hafði búsetu á Hvammstanga, en hann settist að í fyrsta íbúðarhúsi sem byggt hafði verið á Hvammstanga árið 1901, en húsið var byggt árið áður. Fyrsta byggingin sem sérstaklega var reist fyrir heilbrigðisþjónustu var læknisbústaður sem steyptur var upp árið 1918 og tekinn í notkun árið 1919. Í upphafi sinnti héraðslæknirinn um sjúklingana á heimili sínu og naut við það aðstoðar konu sinnar og vinnufólks.
Á árunum 1926 til 1930 var húsnæðið stækkað og "sjúkraskýlið" byggt. Fljótlega var farið að ráða fleira starfsfólk. Fyrsta hjúkrunarkonan Margrét Halldórsdóttir var ráðin til starfa 1923 og starfaði hún samfellt til 1956. 1931 var ráðin matselja að sjúkrahúsinu, en áður hafði læknirinn séð sjúklingum fyrir fæði. Ólafur Gunnarsson var fyrsti læknirinn sem hafði búsetu í læknisbústaðnum, en Jónas Sveinsson tók við af honum, en sennilegi munu tilraunir hans til að yngja upp gamalmenni hér í Húnaþingi halda nafni hans hæst á lofti hér um slóðir.

Á árunum 1957 til 1960 reis aðalbygging sjúkrahússins. Þá hafði verið rætt um nýbyggingu við sjúkraskýlið í mörg ár, en það var ekki fyrr en Kvennabandið lagðist þungt á árarnar, fyrst undir forystu Jónínu S. Líndal á Lækjamóti og síðan Jósefínu Helgadóttur á Laugarbakka, að málið komst á verulegan skrið. Byggingin var samþykkt í Sýslunefnd árið 1955, en Kvennabandið lagði verulegar upphæðir til byggingar og búnaðar hins nýja sjúkrahúss. Eftir þessar endurbætur voru 21 sjúkrarúm á sjúkrahúsinu auk þriggja íbúða fyrir starfsfólk og þjónusturýma. Árið 1984 var byggð setustofa við sjúkrahúsið sem bætti úr brýnni þörf fyrir samverustað fyrir vistfólk. Á þeim tíma voru um 40 sjúkrarúm í notkun í allt of litlu rými þó íbúðum starfsfólks hafi þá verið búið að breyta í sjúkrastofur.

Árið 1986 var nýbyggð heilsugæslustöð tekin í notkun sem gjörbylti allri aðstöðu til þjónustu við sjúklinga í læknishéraðinu. Um 10 árum áður hafði heilsugæslan verið gerð að tveggja lækna stöð og fleira starfsfólk ráðið til að sinna heilsugæslu m.a. héraðshjúkrunarfræðingur.

Árið 1992 hófust gagngerar endurbætur á húsnæði sjúkrahússins. Eldra húsnæði var allt innréttað upp á nýtt og byggð ný 750 fm viðbygging. Framkvæmdir þessar stóðu yfir í nokkur ár og lauk framkvæmdum innanhúss á árinu 2000, en lóðarfrágangi á árinu 2002. Í desember 2002 voru endurbæturnar formlega vígðar af Jóni Kristjánssyni heilbrigðisráðherra sem afhjúpaði við það tækifæri útilistaverkið Tungukotsmóra.