Saga - HVE Hólmavík

Saga heilbrigðisstofnunarinnar í Hólmavík

HVE Hólmavík skiptist í heilsugæslusvið og hjúkrunarsvið.

Heilsugæslustöðin veitir almenna heilsugæsluþjónustu í umdæmi heilsugæslunnar á Hólmavík, sem nær yfir Árneshrepp, Kaldrananeshrepp og Strandabyggð. Íbúafjöldi á svæðinu er tæpl. 700 manns.

Hjúkrunardeildin er með átta einstaklingsherbergi og tvær litlar íbúðir sem ætlaðar eru fyrir tvo einstaklinga hvor, auk þess er eitt bráðarými og sjúkra- og iðjuþjálfunaraðstaða .

Saga HVE Hólmavík
Læknir kom á Hólmavík árið 1903. Hafði hann aðstöðu í sjúkraskýli að Kópnesbraut 7 en þar var hann ennfremur til heimilis. Heilbrigðisstofnunin á Hólmavík var stofnuð árið 1998, þá sameinuðust sjúkrahús og heilsugæsla sem áður voru aðskilin í rekstri.

Heilsugæslustöð hefur verið starfrækt í núverandi húsnæði frá árinu 1985. Heilsugæslustöðin þjónar íbúum Árneshrepps, Kaldrananeshrepps og Strandabyggðar. Heilsugæslustöðin er ágætlega búin, með lítilli slysastofu, rannsóknarstofu, tækjum til röntgenmyndatöku og tannlæknastofu. Þar er lyfsala til húsa sem stofnunin rekur. Á stöðinni er veitt öll grunnheilbrigðisþjónusta, svo sem almennar lækningar, ungbarna- og mæðravernd og heimahjúkrun.

Hjúkrunardeildin er með átta einstaklingsherbergi og tvær litlar íbúðir sem ætlaðar eru fyrir tvo einstaklinga hvor, auk þess er eitt bráðarými og sjúkra- og iðjuþjálfunaraðstaða. Hjúkrunardeildin var byggð á árunum 1948-50 sem læknabústaður og sjúkraskýli. Árið 2003 var tekin í notkun ný viðbygging, samhliða því voru gerðar endurbætur á eldra húsnæði sem bættu alla aðstöðu heimilismanna og starfsfólks.

Læknishéraðið nær yfir Árneshrepp, Kaldrananeshrepp og Strandabyggð. Á þessu sést að héraðið er mjög víðfeðmt og strjálbýlt. Það getur orðið erfitt yfirferðar á vetrum og oft þarf að grípa til sérútbúinna farartækja. Farnar eru skipulagðar ferðir í H-stöð í Árneshrepp.

Við stofnunina er vel útbúin sjúkraflutningabifreið .