Fréttir

Frá vinstri Rósa Marinósdóttir, Jóhanna Fjóla Jóhannesdóttir, Elsa Lára Arnardóttir, Valdís Heiðarsdóttir
Fréttir | 28. sep. 2018

Tilraunaverkefni um styttingu vinnutíma á lyflækningadeild

Þann 24. september sl. undirrituðu forstjóri HVE og Elsa Lára Arnardóttir formaður starfshóps um styttingu vinnutímans á vegum félags- og jafnréttismálaráðherra samkomulag um þátttöku HVE og velferðarráðuneytisins um tilraunaverkefni um styttingu vinnutíma hjá ríkinu.
Með samkomulaginu hefur HVE skuldbundið sig til að stytta vinnutíma allra starfsmanna á lyflækningadeild á Akranesi, að læknum undanskildum, um 10% af vinnutímaskyldu eins og hún er skilgreind í gildandi kjarasamningum. Tilraunaverkefnið stendur frá 1. september 2018 til 31. maí 2019 og áætlað er að því ljúki formlega eigi síðar en í september 2019 með útgáfu lokaskýrslu.
Starfsmenn á lyflækningadeild munu taka þátt í mælingum á framgangi og árangri verkefnisins þ.m.t. með því að svara rafrænum könnunum og taka þátt í rýnihópum og öðrum mælingum eftir því sem þurfa þykir, m.a. áður en verkefnið hófst, um miðbik þess og í lokin. Þá hefur HVE skuldbundið sig til að taka þátt í kynningum á tilraunaverkefninu, svo sem á málþingum og ráðstefnum. Valdís Heiðarsdóttir var skipaður tengiliður og er í forsvari fyrir verkefninu og framkvæmd þess.
Tilraunaverkefninu fylgir fjárframlag frá velferðarráðuneytinu til að vega upp á móti styttingu vinnutímans því tryggja þarf að stytting vinnutíma skerði ekki gæði þjónustunnar og leiði ekki til minni mönnunar.
Myndin sem fylgir var tekin við undirritun samkomulagsins.