Fréttir

Fréttir | 25. maí 2021

Tilkynning um framkvæmdir á sjúkrahúsi HVE á Akranesi

Umfangsmiklar endurbætur eru að hefjast á húsnæði sjúkrahúss HVE á Akranesi. Vegna endurbóta á húsnæði 2. og 3. hæðar „miðhússins“ þarf að flytja starfsemi handlækninga- og lyflækningadeildar til innan sjúkrahússins á meðan framkvæmdir standa yfir. 

Frá og með 26. maí verður lyflækningadeildin til húsa í elstu byggingunni þar sem E-deildin/biðdeildin var áður og verður þar uns hún flytur aftur á sinn stað 1. desember. Heimsóknargestum er ráðlagt að fara um innganginn við Heiðarbraut (þar sem farið er í blóðprufu).

Handlækningadeild og kvennadeild verða samreknar í húsnæði kvennadeildar frá 27. maí til 1. desember en þá mun handlækningadeildin færast á E-deildina/biðdeildina í átta vikur á meðan húsnæði deildarinnar verður fullklárað.

Lágmarksstarfsemi verður á sjúkrahúsinu frá 10. júní til 6. júlí því þá má eiga von á verulegu ónæði og hávaða af völdum múrbrots og niðurrifs á deildunum. Hlé verður á starfsemi handlækningadeildar og kvensjúkdómahluta kvennadeildar frá 10. júní til 6. júli en þjónusta við barnshafandi og fæðandi konur sem búsettar eru í heilbrigðisumdæmi Vesturlands verður óskert.  Bakvakt verður á skurðstofunni þennan tíma en frá og með 7. júlí verður starfsemi skurðstofu í samræmi við hefðbundna sumarstarfsemi.

Frá 10. júní til 6. júlí má búast við talsverðu ónæði á 1. hæð þar sem slysadeild, myndgreining og móttökustofur sérfræðilækna eru staðsettar. Dagana 28. júní til 7. júlí þarf að loka ákveðnum stofum á 1. hæð, nokkra daga í senn, vegna vinnu við kerfisloft og vinnu við stokka sem þarf að fara með í gegnum hæðina. Göngudeildarstarfsemi og komur til sérfræðilækna verða skipulagðar í samræmi við þetta.

Framkvæmdirnar eiga ekki að hafa áhrif á starfsemi heilsugæslustöðvarninnar en þó eru líkur á að einhverjar tilfæringar þurfi að gera þar nokkrar vikur í haust þegar framkvæmdir við nýja skurðstofu hefjast en það mun verða kynnt þegar nær dregur.

Það er okkar einlæga von að íbúar þjónustusvæðisins verði fyrir sem minnstum óþægindum á meðan þetta tímabil framkvæmda gengur yfir. Við horfum með tilhlökkun til þess tíma þegar deildarnar færast aftur á sinn stað að loknum gagngerum og langþráðum endurbótum á húsnæði en handlækningadeildin er nánast í sinni upprunalegu mynd frá árinu 1968 og lyflækningadeildin frá árinu 1977. Þessar breytingar mun bæta aðstöðu sjúklinga og starfsmanna til mikilla muna og m.a. fjölgar einbýlum og snyrtingum fyrir sjúklinga.