Fréttir

Fréttir | 04. jún. 2019

Samdráttur í þjónustu á sjúkrasviði HVE sumarið 2019

Samdráttur í þjónustu á sjúkrasviði HVE sumarið 2019. Venju samkvæmt dregur úr starfsemi HVE yfir sumartímann í tengslum við sumarleyfi starfsmanna og lágmarksstarfssemi verður á flestum starfseiningum yfir hásumarið.

Bent er á að engin skerðing verður á viðbúnaði vegna bráðaþjónustu á starfssvæðinu.

Samdráttur verður á þjónustu sjúkrasviðs á Akranesi þar sem dregur í skipulegri valstarfsemi s.s. aðgerðum yfir sumarmánuðina.

Því miður þarf að grípa til þess úrræðist að gera hlé á starfsemi sjúkradeildarinnar í Stykkishólmi í sex vikur vegna skorts á starfsfólki til afleysinga til að unnt sé að veita starfsmönnum deildarinnar sumarorlof. Framkvæmdastjórn þykir miður að grípa þurfi til þessa úrræðis en sumarið 2016 þurfti að gera hlé á starfsemi deildarinnar af sömu ástæðum. Það er ljóst að þetta mun valda óþægindum fyrir þá sem hefðu getað nýtt sér þjónustu deildarinnar á tímabilinu en þeim verður tryggð þjónusta og heimahjúkrun verður efld á meðan gerist þess þörf.

Eftirfarandi deildir á sjúkrasviði HVE hafa skilgreint tímabil með samdrætti í þjónustu í sumar:

  • Handlækninga- og kvennadeild HVE á Akranesi verða samreknar með 10 rúm opin í stað 20 rúma frá 15. júní til 17. ágúst.
  • Lyflækningadeild HVE á Akranesi verður með 12 rúm opin í stað 18 rúma frá 1. júní til 6.ágúst.
  • Dregið verður úr starfsemi skurðstofu og svæfingadeildar á Akranesi frá 1. júní til 26. ágúst, þann tíma verður ein skurðstofa opin.
  • Hlé verður á starfsemi sjúkradeildar HVE í Stykkishólmi frá 14. júní til 29. júlí.