Fréttir

Emil Einarsson yfirsálfræðingur á HVE
Fréttir | 25. okt. 2017

Sálfræðiþjónusta HVE

 

Nú í haust stendur til að efla sálfræðiþjónustu á heilsugæslustöðvum Heilbrigðisstofnunar Vesturlands (HVE). Emil Einarsson hefur verið ráðin sem yfirsálfræðingur og faglegur ábyrgðaraðili þjónustunnar en hann hefur víðtæka reynslu af meðferðar og rannsóknarstörfum. Aukin sálfræðiþjónusta á heilsugæslustöðvum er hluti af aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar í geðheilbrigðismálum næstu fjögur árin.

Sálfræðiþjónusta HVE er í mótun en nú þegar er byrjað að veita sálfræðiþjónusta fyrir fullorðna með námskeiðum í hugrænni atferlismeðferð í nokkrum sveitarfélögum. Hugræn atferlismeðferð í hóp hefur gefið góða raun og er hún í boði á öllum landsvæðum Vesturlands.

Einnig verður lögð áhersla á að koma á fót þjónustu fyrir börn á  svæðinu. Nú þegar hefur verið ráðinn annar sálfræðingur í 75% starf sem mun bjóða upp á þjónustu fyrir börn. Hún heitir Huldís Franksdóttir Daly og hefur störf þann 1. nóvember. Sálfræðiþjónusta HVE er hugsuð sem viðbót við þá þjónustu sem er til staðar nú þegar hjá sveitarfélögunum. Megináhersla verður á meðferðarvinnu.

Svæði HVE er stórt og ljóst er að sálfræðingar munu ekki verða staðsettir á öllum svæðum til þess að vera með regluleg viðtöl. Reynt verður eftir fremsta megni að veita þá þjónustu í heimabyggð sem mögulegt er en einnig getur verið að fólk þurfi að ferðast á milli svæða til þess að sækja þjónustu.

Frekari upplýsingar um sálfræðiþjónustu verður að finna á vef HVE