Chat with us, powered by LiveChat

Fréttir

Heimsókn heilbrigðisráðherra og opnun nýrrar skurðstofu
Heimsókn heilbrigðisráðherra og opnun nýrrar skurðstofu
Heimsókn heilbrigðisráðherra og opnun nýrrar skurðstofu
Heimsókn heilbrigðisráðherra og opnun nýrrar skurðstofu
Heimsókn heilbrigðisráðherra og opnun nýrrar skurðstofu
Fréttir | 29. ágú. 2022

Heimsókn heilbrigðisráðherra og opnun nýrrar skurðstofu

Heimsókn heilbrigðisráðherra og opnun nýrrar skurðstofu

Fimmtudaginn 25. ágúst s.l. heimsótti Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra HVE í tilefni af formlegri opnun nýrrar skurðstofu á sjúkrahúsi HVE á Akranesi auk þess sem hann fundaði með framkvæmdastjórn. Með ráðherra í för voru Sigurjón Jónsson aðstoðarmaður ráðherra, Guðlaug Einarsdóttir skrifstofustjóri sjúkrahúsa og sérþjónustu, Helga Harðardóttir sérfræðingur á skrifstofu sjúkrahúsa og sérþjónustu og Margrét Erlendsdóttir upplýsingafulltrúi ráðuneytisins.

Starfsmenn komu saman til að fagna opnun skurðstofnunnar og þeim stóra áfanga sem náðst hefur á síðustu 15 mánuðum með langþráðum endubótum á húsnæði og búnaði á handlækninga- og lyflækningadeild sem nú er lokið réttum 70 árum eftir að sjúkrahúsið á Akranesi tók til starfa.

Heilbrigðisráðherra ávarpaði samkomuna og forstjóri fór yfir tímalínu framkvæmdananna í máli og myndum. Þá tóku til máls Stefán Þorvaldsson yfirlæknir lyflækningadeildar, Birna Katrín Hallsdóttir deildarstjóri handlækningadeildar og Björn Gunnarsson yfirlæknir skurð- og svæfingadeildar.

Í máli Jóhönnu F. Jóhannesdóttur forstjóra HVE í kom fram að langþráður og mikilvægur áfangi hefði náðst í endubótum á húsnæði HVE á Akranesi. Hún þakkaði heilbrigðisráðherra og embættismönnum í HRN fyrir stuðninginn við að koma verkefninu áfram og því trausti sem fyrrverandi heilbrigðisráðherra Svandís Svavarsdóttir sýndi stofnuninni með því að fela HVE aukin verkefni og ákveða framkvæmd sem fól í sér standsetningu á viðbótarskurðstofu á Akranesi sem getur afkastað allt að 430 aðgerðum á ári eins og fram kom í tilkynningu á vef ráðuneytisins  31. ágúst 2021. Sjá  https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2021/08/31/Lidskiptasetur-sett-a-fot-a-Akranesi-haegt-verdur-ad-gera-um-430-adgerdir-a-ari/

Þá þakkaði hún stjórn Hollvinasamtaka Heilbrigðisstofnunar Vesturlands fyrir ómetanlegan stuðning síðustu árin og nefndi sérstaklega það einstaka framtak samtakanna sem fór af stað árið 2019 með söfnun meðal fyrirtækja, einstaklinga og félagasamtaka á Vesturlandi sem skilaði stofnuninni samtals 35 nýjum sjúkrarúmum.  Einnig nefndi hún Lionsklúbb Akraness sem stutt hefur ötullega við starfsemina frá því tækjasjóður klúbbsins var stofnaður árið 1958 sem hefur átt sinn þátt í að tekist hefur að búa sjúkrahúsið betri tækjakosti.

Forstjóri hrósaði starfsmönnum fyrir jákvæðni, þolinmæði og samstöðu í gegnum hið erfiða framkvæmdatímabil og sagði að þeir hefðu lagt sig fram um láta þetta ganga við krefjandi aðstæður.

Þá hrósaði hún sérstaklega öflugu teymi á viðhalds- og tæknideildinni fyrir þeirra vinnuframlag og sagði án þeirra hefði þetta ekki gengið svona vel.

Að loknum ávörpum bauð Þura B. Hreinsdóttir fundarstjóri viðstöddum að skoða nýju skurðstofuna, líta inn á legudeildir og þiggja veitinar í borðsal.

Starfsmenn skurð- og svæfingadeildar höfðu undirbúið móttökuna vel og klæddu alla í viðeigandi hlífðarfatnað þ.e. skó, langermaslopp og húfu við komu. Viðstaddir fengu góða leiðsögn um deildina, skoðuðu nýju skurðstofuna og aðstöðuna fyrir tækjaþvott, lager o.fl.  Þá fræddu bæklunarlæknarnir Sverrir Þór Kiernan og Jón Ingvar Ragnarsson heilbrigðisráðherra og aðra um þau fjölbreyttu tæki og tól sem notuð eru í liðskiptaaðgerðum.  Það viðbótarrými sem fékkst með því að lyfta þakinu á hluta deildarinnar hefur gjörbreytt allri vinnuaðstöðu því rými sem frá upphafi var undir súð og ómanngengt að stórum hluta skapaði möguleika á að innrétta herbergi fyrir hreint og óhreint skol auk vörulagers og aðstöðu fyrir starfsmenn. 

Um framkvæmdirnar

Í lok maí 2021 var hafist handa við allsherjar endurbætur á handlækningadeild (565 m2 á 2.hæð) og lyflækningadeild (575 m2 á 3. Hæð). Unnið hafði verið að því um langt skeið að ná fram endurbótum á deildunum með þarfir sjúklinga og bætta vinnuaðstöðu starfsmanna að leiðarljósi.  Innréttingar og skipulag handlækningadeildar sem opnaði fyrir tæpum 54 árum og lyflækningadeildar sem opnaði fyrir 45 árum voru að mestu óbreyttar frá upphafi og því eðlilegt að húsnæðið væri ekki lengur í takti við þróun starfseminnar og þarfir nútímans. En aðbúnaður og vinnuaðstaða er eitt af því sem gerðar eru ríkari kröfur til í dag og hjálpar til við að laða að starfsfólk og halda í það.

Síðastliðnir 15 mánuðir hafa verið viðburðarríkir og verða mörgum starfsmönnum eftirminnilegir. Það reyndi á og starfsmenn þurftu svo sannarlega og hugsa út fyrir boxið og leita lausna þegar flytja þurfti starfsemi deildanna til innanhúss, koma hluta af búnaði fyrir í geymslu úti í bæ og búa um starfsemina í minna húsnæði.  

Lyflækningadeildin flutti í lok maí 2021 í húsnæði biðdeildar í elstu álmu sjúkrahússins og var þar í tæpa 7 mánuði við þröngan húsakost og ekki var hægt að hafa nema 11 legurými með góðu móti þó að stundum væru rýmin fleiri. Starfsemi handlækningadeildar var flutt yfir á gang kvennadeildar í lok maí 2021 þar sem deildirnar voru samreknar í 7 mánuði með 10 rúm í stað 20 sem hafði þau áhrif að fækka þurfti skurðaðgerðum og biðlistar lengdust.  Um áramótin flutti handlækningadeildin síðan yfir á biðdeildina og var þar uns flutt var í endurgerða húsnæðið 1. apríl, eftir 10 mánuða „útilegu“. 

Frá því í byrjun október 2021 hefur verið unnið hörðum höndum að uppsetningu á nýrri skurðstofu, margir fagaðilar, hver með sitt verk, hafa þurft að deilda tiltölulega litlu rými í enda skurðdeildarinnar sem lokað var frá öðru rými skurðstofugangsins. Ýmislegt í ferlinu gekk hægar en vænst var og seinkaði frágangi á skurðstofurýminu nokkuð, en upphaflegt tímaviðmið var að hægt yrði að opna skurðstofuna í apríl s.l. Flest orsakaðist af óviðráðanlegum utanað komandi þáttum er tengjast covid faraldrinum s.s. afgreiðslutíma og framleiðslu á aðföngum og þá er afgreiðslutími á lækningatækjum mun lengri en áður var.

Tímabilið sem framkvæmdir og raskið vegna endurbóta legudeildanna stóð yfir var sannarlega erfitt en það hjálpaði mikið hve allt samstarf við verkaka gekk vel. Sérstakar þakkir fær Halldór B. Hallgrímsson deildastjóri viðhalds- og tæknideildar sem hafði umsjón með framkvæmdum og stóð sig einstaklega vel í að skipuleggja og stýra verkefni legudeilda og skurðstofu frá fyrsta degi. Þeir verktakar sem komu að verkinu eiga hrós skilið fyrir tillitsemi og sveigjanleika og ýmsar tilfærslur vegna starfseminnar sem fyrir var í húsinu.  

Að lokum

Næsta skref er að hefja aðgerðir á nýju skurðstofunni í þessari viku. Fagfólkið sem kemur að þjónustu við sjúklinga sem koma í liðskipti á mjöðm og hné hefur hafið vinnu við að breyta skipulagi við innskriftir, verklagi við aðgerðir, dvöl og eftirfylgni til að fjölga liðskiptaaðgerðum og mun það verða kynnt betur innan tíðar.