Fréttir

Á myndinni eru talið frá vinstri Árni Arnarson skurðlæknir, Jóhanna F Jóhannesdóttir forstjóri, Valdimar Þorvaldsson formaður Lionsklúbbsins, Rósa Marinósdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar og Ásgeir Ásgeirsson framkvæmdastjóri fjármála.
Fréttir | 17. apr. 2018

Lionsmenn gefa nýtt ristilspeglunartæki og sogtæki á speglanadeild HVE á Akranesi

Lionsklúbbur Akraness færði speglanadeild HVE á Akranesi ný tæki að gjöf í byrjun apríl. Um er að ræða ristilspeglunartæki frá Olympus af fullkomnustu gerð og sérstakt sogtæki sem notað er við speglanir. Verðmæti gjafanna er um 4,9 m.kr.

Valdimar Þorvaldssonar formaður Lionsklúbbs Akraness afhenti gjafabréf þar sem tækin eru ekki komið í hús og tók Árni Þór Arnarson skurðlæknir við því fyrir hönd HVE. Áður en afhending fór fram flutti Árni Þór fróðlegt erindi um ristilspeglanir og að loknu borðhaldi bauð hann Lionsmönnum að skoða speglunaraðstöðuna, fór yfir hvernig slík rannsókn fer fram og svaraði spurningum.

Forstjóri HVE færði Lionsklúbbnum bestu þakkir fyrir þessar veglegu gjafir og þann einstaka stuðning sem hann hefur sýnt sjúkrahúsinu á Akranesi í þau 60 ár sem liðin eru frá stofnun klúbbsins. Með framlagi sínu í gegnum tíðina hefur Lionsklúbburinn stutt dyggilega við fjölmarga þjónustuþætti og gert stofnuninni kleift að  endurnýja og viðhalda nauðsynlegum tækjabúnaði og öflugri sérfræðiþjónustu.

Meðfylgjandi mynd er frá afhendingunni, myndina tók Magnús Magnússon frá Skessuhorni.