Fréttir

Myndin er af Valdísi Heiðarsdóttur og Carli J. Granz. Myndina tók Magnús Magnússon á Skessuhorni.
Fréttir | 18. nóv. 2021

Lionsmenn færa lyflækningadeild gjöf

Þann 15.nóvember sl. færðu Lionsmenn á Akranesi lyflækningadeild HVE á Akranesi veglega gjöf.

Um er að ræða gjafabréf til kaupa á veggföstum gjörgæsluvaktara (monitor) ásamt tveimur þráðlausum vökturum. Þá verður hluti af gjöfinni notaður til að uppfæra eldri monitor sem fyrir er á deildinni.

Verðmæti gjafarinnar er 3,7 m.kr.

Valdís Heiðarsdóttir hjúkrunardeildarstjóri lyflækningadeildar tók við gjafabréfinu frá Carli J. Granz formanni Lionsklúbbsins og þakkaði fyrir hönd starfsmanna og sjúklinga fyrir þessa veglegu gjöf. Þá fór hún yfir og útskýrði virkni búnaðarins og svaraði spurningum klúbbsfélaga.

 

Með mikilvægum stuðningi í gegnum tíðina, eða í yfir 60 ár hefur Lionsklúbbur Akraness átt stóran þátt í að tekist hefur að viðhalda og endurnýja mikilvægan tækjabúnað á HVE Akranesi.

Á árunum 2017 -2020 safnaði klúbburinn og færði HVE á Akranesi eftirtalinn búnað að verðmæti 18,5 m.kr.

2017 - Blóðkornateljari á rannsóknadeild.

2018 - Ristilspeglunartæki á speglunardeild.

2019 - Gjörgæsluvaktari á svæfingadeild og tveir bekkir á vöknun.

2020 - Gjörgæsluvaktarar, tveir á handlækningadeild og einn á slysadeild auk skilvindu á rannsóknadeild.