Fréttir

Framkvæmdir á Heilbrigðisstofnun Vesturlands í Stykkishólmi
Fréttir | 13. júl. 2021

Framkvæmdir á Heilbrigðisstofnun Vesturlands í Stykkishólmi

Undirbúningur við þriðja áfanga framkvæmda á Heilbrigðisstofnun Vesturlands í Stykkishólmi hefur staðið yfir undanfarin ár. Um er að ræða endurgerð húsnæðis fyrir 18 hjúkrunarrými, með sameiginlegum matsölum fyrir íbúa og setustofum, ásamt starfsmannaaðstöðu og tilheyrandi stoðrýmum á tveimur hæðum.  Þá verður einnig gerður nýr inngangur á 1. hæð við hliðina á eldhúsinu. Stykkishólmsbær og heilbrigðisráðuneytið standa saman að þessum framkvæmdum og áætluð verklok eru í júní 2022. Verkið var boðið út þann 26. maí sl. og barst eitt tilboð sem var frá Skipavík ehf.  Tilboðið frá Skipavík hefur verið samþykkt og kominn á samningur milli aðila og eru framkvæmdir að fara af stað.

 Verkið er umfangsmikið og felur m.a. í sér að fjarlægja þarf innréttingar, rífa milliveggi, fjarlægja eldri lyftuna og koma fyrir stærri í nýjum lyftustokk. Hjúkrunarrýmin verða staðsett á tveimur hæðum. Á 2. hæð byggingarinnar, þar sem sjúkradeildin hefur verið, verða 12 hjúkrunarrými og í eldri hluta 3.hæðar verða 6 hjúkrunarrými.  Í nýrri hluta 3. hæðarinnar verða 4 almenn sjúkrarými. Undanfarið hefur öflugur hópur starfsmanna unnið að því að flytja búnað og tæma húsnæðið sem fer undir hjúkrunarrýmin.

 Vegna niðurrifs og stækkunar á lyftu sem staðsett er við hliðina á eldhúsinu á 1.hæð þarf að færa starfsemi eldhússins úr húsinu í nokkrar vikur í júlí og fram til 18. ágúst.  Þá verður óhjákvæmilega rask sem kallar á tímabundna tilfærslu á starfsemi heilsugæslustöðvarinnar í einhverjar vikur á meðan mesta niðurrifið, lagnatengingar milli hæða og vinna við lyftustokkinn stendur yfir. Áætlað er að þeirri vinnu verði lokið 9. ágúst.  Hlé var gert á starfsemi sjúkradeildarinnar 26. júní og allt kapp verður lagt á að starfsemi hennar fari að stað aftur í lok ágúst.  Ráðgert er að háls- og bakdeildin hefji starfsemi að loknu sumarleyfi í byrjun september.

 Tímarammar þeirra áfanga sem vinna þarf fyrstu mánuðina eru krefjandi og þröngir sem skýrist af því að taka þarf tillit til þeirrar starfsemi sem fyrir er á stofnuninni. Eftir að þessum fyrstu áföngum lýkur verða framkvæmdir næsta vetur bundnar við 2. og 3. hæðina og vinnusvæðið lokað af frá annari starfsemi í húsinu.