Fréttir

Fréttir | 05. feb. 2020

Frá Háls- og bakdeild HVE Stykkishólmi

Háls- og bakdeild SFS, HVE Stykkishólmi opnaði nú í haust með aðeins breyttu sniði en áður.

Háls- og bakdeildin hefur ásamt stjórn HVE og Velferðarráðuneytinu sett upp samstarfsverkefni Þar sem lagt er upp með fjarlæknisþjónustu í samstarfi við Bjarna Valtýsson og Sigurð Á Kristinsson, lækna í Corpus Medica. Bjarni tekur fullan þátt í teymisstarfi og fræðslu fyrir skjólstæðinga deildarinnar ásamt því að sjá um sprautumeðferðir sé þess þörf og eru þær framkvæmdar í aðstöðu Corpus Medica.

Formi Háls- og bakdeildarinnar var breytt samhliða þessu á þann hátt að nú er meðferðum sinnt á dagdeild og skjólstæðingar hennar gista áfram á stofnuninni. 

Meðferðin sjálf hefur ekki breyst. Fagteymi deildarinnar hefur gríðarlega reynslu og þekkingu á sviði bakverkja og fylgist vel með allri þróun og nýrri þekkingu á sviði háls- og bakverkja, sem fleygir hratt fram. 

Háls- og bakdeildin þjónar öllu landinu eins og áður og geta læknar áfram sent tilvísanir þangað, þá geta einstaklingar einnig leitað til lækna og/eða annarra sérfræðinga varðandi tilvísanir á deildina. Allar tilvísanir eru metnar hver fyrir sig og eru skjólstæðingar kallaðir til mats annað hvort í Stykkishólm eða í Corpus Medica eftir aðstæðum.

Tilvísanir skal senda rafrænt í sögukerfi (Heilbrigðisstofnun Vesturlands Stykkishólmi), eða með pósti til:

Háls- og bakdeild SFS

Heilbrigðisstofnun Vesturlands

Austurgötu 7

340 Stykkishólmi