Fréttir

Fréttir | 23. maí 2018

Endurhæfingadeild St. Franciskusspítala HVE Stykkishólmi 40 ára

Síðasta vetrardag, 18.apríl sl var haldið upp á að 40 ár eru síðan formleg starfsemi um endurhæfingu var sett á laggirnar hér í Stykkishólmi.  Það var fyrir tilstilli sr.Lidwinu sem hafði í sérnámi sínu í heimahjúkrun séð þörfina fyrir sérhæfða meðferð með eflingu líkamlegrar getu að markmiði.  Endurhæfingastarf hefur þróast og breyst mikið á þessum tíma og sérhæfing orðin mikil.  Samhliða afmæli endurhæfingadeildar var haldið uppá 25 ára starfsafmæli Háls- og bakdeildar en hún hefur gengið í gegnum ýmsar breytingar á þeim tíma sem hún hefur starfað og er áfram í stöðugri þróun. 

Margt góðra gesta heiðraði okkur á þessum tímamótum.  Gunnlaugur Briem, varaformaður félagsins okkar (Félags sjúkraþjálfara), stjórn HVE, bæjarstjóri og hluti bæjarstjórnar Stykkishólms fyrrum starfsmenn endurhæfingadeildarinnar og fleiri góðir gestir. Tónlistaratriði prýddu skemmtunina og gaf henni ferskan blæ.

Fyrirlesarar voru með erindi, Lucia de Korte sjúkraþjálfari sem lengst hefur unnið á deildinni og var í forsvari ásamt Jósep Blöndal við stofnun Háls- og bakdeildarinnar, sagði sögu deildarinnar og má lesa hana í heild sinni á heimasíðu HVE.  Nanna Guðný sjúkraþjálfari, formaður Félags sjúkraþjálfara í öldrunarþjónustu og gæðastjóri Hrafnistuheimilanna hélt fróðlegan fyrirlestur um gagnsemi endurhæfingar eldri borgara og hvernig hún nýtist samfélaginu og heilbrigðis og félagslega kerfinu okkar eins og það er byggt upp í dag.

Við þetta tækifæri var Jósep Blöndal, fráfarandi sjúkrahúslæknir St.Franciskusspítala, HVE Stykkishólmi, kvaddur af samstarfsmönnum og honum þakkað samstarfið og óeigingjarna vinnu við St.Franciskusspítalann og Háls- og bakdeildina þau 27 ár sem hann starfaði þar.

Einnig voru deildinni færðar peningagjafir, Kvenfélag Stykkishólms, Lionsklúbburinn Harpa styrktu deildina og er peningunum ánafnað til kaupa á göngubretti.  Anna Sigríður Traustadóttir færði deildinni einnig peningagjöf en hún hefur nýtt þjónustu endurhæfingadeildarinnar frá upphafi.

Einstaklega skemmtileg síðdegisstund í blíðskaparveðri.  Þakka öllum sem studdu okkur við framkvæmdina og tóku þátt í fagnaðinum með okkur.

Fyrir hönd endurhæfingardeildar HVE Stykkishólmi

Hrefna Frímannsdóttir

Yfirsjúkraþjálfari