Gerviliðsaðgerð á mjöðm

Til útprentunar í pdf...

 

Í bæklingi þessum eru ýmis hagnýt atriði varðandi innlögn, aðgerð og heimkomu. Þér er velkomið að hringja á deildina ef einhverjar spurningar vakna við lestur hans. Sími handlækningadeildar HVE Akranesi er 432 1110.

 

Fyrir aðgerð

Hætta þarf töku ýmissa lyfja viku fyrir aðgerð vegna blæðingarhættu. Þetta eru:

· Blóðþynningarlyf (t.d. Kóvar, Dicumarol, Plavix, Persiantin). Í sumum tilvikum þarf önnur blóðsegaverjandi meðferð að koma í staðinn. Heilsugæslulæknir þinn getur svarað hvort sú þörf sé til staðar í þínu tilfelli.

· Bólgueyðandi gigtarlyf (t.d. Íbúfen, Naproxen, Vóstar, Voltaren Rapid, Arthrodec, Modifenac Arcoxia). Þú mátt taka lyfið Celebra.

· Lyf sem innihalda acetylsalisylsýru (t.d. Alka Seltzer, Magnyl, Hjartamagnýl, Treo).

· Ennfremur er ráðlegt að hætta töku allra svokallaðra náttúrulyfja, t.d. birkiösku, hákarlalýsis, lýsis og Herbalife.

 

Þú mátt taka öll önnur lyf eins og venjulega og ef þú hefur tekið gigtarlyf og hættir töku þeirra máttu taka önnur verkjalyf, t.d. Parasetamól, Parkódín, Parkódín forte eða Tradolan í staðinn þessa viku.

 

Þú þarft að huga að góðri næringarinntöku og borða eggjahvíturíkan mat (fisk, kjöt, skyr), ávexti og grænmeti til að byggja þig upp og flýta fyrir að sár og bein grói eðlilega eftir aðgerð.

 

Óskir þú eftir dvöl á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði eftir aðgerð þarf læknir að sækja um dvöl þar og getur deildarlæknir gert það þegar þú kemur í innskriftarviðtal.
Sama gildir um sjúkrahótel Rauða krossins. Athugið að greiða þarf fyrir dvöl á Heilsustofnun NLFÍ.

 

Nauðsynlegt getur verið að gera ráðstafanir á heimili fyrir innlögn til að undirbúa heimkomu.

Til dæmis er gott að fjarlægja lausar mottur og rafmagnssnúrur til að minnka hættu á falli, færa til hluti sem mikið eru notaðir, t.d. í eldhúsi, til að auðvelda aðgengi að þeim.

Nauðsynlegt gæti verið að fá aðstoð þegar heim er komið, svo sem heimahjúkrun, aðstoð við þrif, heimsendan mat eða skipulagða aðstoð frá ættingjum.

 

Ef þú átt tvær hækjur er gott að taka þær með þegar þú leggst inn, annars er hægt að kaupa hækjur á sjúkrahúsinu.

 

Undirbúningsrannsóknir og viðtöl

Þú mætir á handlækningadeild á 2. hæð HVE Akranesi kl. 9:30 til undirbúnings fyrir aðgerðina. Þar mun fagfólk deildarinnar hitta þig, fá hjá þér upplýsingar varðandi heilsufar, svara spurningum þínum og veita þér viðeigandi leiðbeiningar.

 

Þú þarft að hafa meðferðis lyfjakort og upplýsingar um föst lyf. Þú mátt borða morgunverð og taka þín föstu lyf eins og venjulega (sjá þó kaflann um lyf hér á undan).

Þú ferð í rannsóknir sem meta heilsufar þitt; blóðprufu, hjartalínurit, röntgenmynd af mjöðm, lungum og hjarta og þú þarft að skila þvagprufu.

Hjúkrunarfræðingur, deildarlæknir og svæfingalæknir ræða við þig. Sjúkraþjálfari og iðjuþjálfi munu einnig ræða við þig um hreyfingu eftir aðgerð, notkun og útvegun nauðsynlegra hjálpartækja.

Áætlað er að þetta taki 3-4 klst., eftir það getur þú farið heim.

Ef eitthvað er athugavert við niðurstöður rannsókna verða viðeigandi ráðstafanir gerðar.

 

Það getur þurft að fresta aðgerð ef ný heilsufarsvandamál greinast við þessa skoðun s.s. sár á húð, sýkingar eða blóðrásarkvillar. Ef þú ert með þvagfærasýkingu þarf að meðhöndla hana.

 

Innlögn

Þú kemur á deildina kl. 17–18 daginn fyrir aðgerð. Þú hefur meðferðis persónulegar hreinlætisvörur, slopp, góða og stöðuga skó og þægilegar buxur. Að kvöldi ferð þú í sturtu með sótthreinsandi sápu og gefið er hægðalosandi lyf í endaþarm. Þú færð einnig blóðsegaverjandi lyf til að minnka hættu á blóðtappa, sem síðan er gefið daglega meðan á dvöl þinni stendur.

 

Á spítalanum má nota GSM síma, iPod, geislaspilara, útvarp og fartölvu. Þráðlaus nettenging er til staðar á sjúkrastofum.

Deildin getur hvorki ábyrgst fjármuni né verðmæti sem fólk hefur meðferðis. Því er ráðlegt að skilja slíkt eftir heima. Sé þess óskað er þó hægt að láta geyma verðmæti í læstum skáp.

Reykingar eru bannaðar á SHA. Boðið er upp á nikótínplástur sé þess óskað. Kjósi fólk fremur að nota nikótíntyggjó eða annað, þarf að hafa það meðferðis.

 

Framkvæmd aðgerðar

Aðgerðin er gerð gegnum skurð sem liggur frá rasskinn niður á lærlegg og er 20-30 cm langur. Settur er inn gerviliður og festur með þar til gerðu efni. Aðgerðin tekur u.þ.b. 1 1/2 klst. og er venjulega gerð í mænudeyfingu.

 

Aðgerðardagur

Fjarlægja þarf gleraugu, linsur, alla skartgripi, naglalakk og andlitsfarða fyrir aðgerð. Þú mátt hafa lausar tennur.

Þú ferð aftur í sturtu með sótthreinsandi sápu. Þú hittir  lækninn þinn. Settur er æðaleggur í handarbak og þér gefin lyfjaforgjöf og sýklalyf.

 

Eftir aðgerð verður þú á vöknun þar sem fylgst er með lífsmörkum (blóðþrýstingi, púls og súrefnismettun í blóði). Þú verður með sogdren í skurðsári og þvaglegg. Stundum þarf líka að gefa súrefni í nös, vökva og/eða blóð.

 

Þér er boðið að borða og drekka þegar þú kemur á legudeild. Þú þarft að liggja á bakinu fyrstu nóttina. Nauðsynlegt er að gera pumpuæfingar fyrir ökkla. Lyf til að meðhöndla verki og ógleði eru gefin eftir þörfum.

 

1.- 7.dagur eftir aðgerð

Áfram er hafður þvagleggur. Sogdren er fjarlægt eftir 1 sólarhring.

Þú gerir pumpuæfingar fyrir ökkla. Lyf við verkjum og ógleði eru gefin reglulega og eftir þörfum. Þú mátt leggjast á óskornu hliðina með aðstoð starfsfólks og þarft að hafa kodda á milli fóta. Þú þarft að vera í sérstökum stuðningssokkum fyrstu dagana til að minnka hættu á segamyndun og bjúgsöfnun.

 

Strax á 1. degi er fótaferð í hárri göngugrind með aðstoð sjúkraþjálfara og starfsfólks, a.m.k. 4 sinnum á dag.

 

Á 2. degi færð þú sérútbúinn stól til að sitja í.

 

Eftir 2-3 daga ferðu að ganga um með hækjur.

 

Meðan á innlögn stendur (oftast 5-7 dagar) er lögð áhersla á að þú verðir eins sjálfbjarga með athafnir daglegs lífs og mögulegt er.

 

Hjálpartæki

Hjálpartæki eru nauðsynleg eftir aðgerð en notkun þeirra minnkar líkur á liðhlaupi, eykur sjálfbjargargetu og auðveldar rétta líkamsbeitingu.

Um er að ræða hjálpartæki sem koma í veg fyrir að þú beygir mjöðmina of mikið, en það eru stólsessa, salernisupphækkun, sokkaífæra og griptöng. Athugaðu að einnig er gott fyrir þig að eiga langt skóhorn.

Iðjuþjálfi sér um að kynna fyrir þér hjálpartækin og leiðbeina þér um notkun þeirra.

Sótt er um hjálpartækin til Sjúkratrygginga Íslands sem lánar þau endurgjaldslaust í 3 mánuði. Þau eru afhent á SHA meðan á innlögn stendur en ber að skila að notkun lokinni til Sjúkratrygginga Íslands.

 

Hjálpartækjamiðstöð Sjúkratrygginga Íslands

Vínlandsleið 16

113 Reykjavík,

Sími 515 0100, opið kl. 8:30 – 15:30.

 

 

Hreyfingar

Sjúkraþjálfari kennir þér hvernig þú átt að hreyfa þig eftir aðgerð; t.d. að fara fram úr rúmi, að ganga með hækjur, að setjast og standa upp úr stól.

Til að minnka líkur á liðhlaupi ber að forðast beygju í mjöðm yfir 90°, snúning á mjöðm inn á við og að krossleggja fætur.

Þá er þér leiðbeint um hreyfingar, lífsstíl og varúðarráðstafanir eftir heimkomu. Sjá myndir í pdf skjalinu.

 

Útskrift

Útskrift er ákveðin með 1-2 daga fyrirvara.

Ef þú þarft að sækja um heimahjúkrun eða félagslega aðstoð getur starfsfólk deildarinnar aðstoðað við það.

Ef þú þarft vottorð, lyfseðla eða lyfjakort mun deildarlæknir annast það.

Ef þú útskrifast á aðra stofnun færðu nauðsynleg gögn með þér.

Þú færð endurkomutíma eftir 6-8 vikur hjá sérfræðingi sem framkvæmdi aðgerðina.

Hefti í skurðsári þarf að fjarlægja 2 vikum eftir aðgerð á þinni heilsugæslustöð.

 

Fólk er minnt á að taka með sér allar sínar eigur við brottför af sjúkrahúsinu.

 

Heimferð

Þú getur farið heim í venjulegum fólksbíl sem farþegi. 

Mælt er með:

· að þú notir sessuna í framsætið,að sætið sé dregið eins langt aftur og hægt er og bakinu sé hallað,

· að þú farir inn í bílinn með því að snúa baki að bílnum, setjist fyrst og hallir þér aftur á bak á meðan þú snýrð þér og dregur fæturna inn í bílinn. Sjá myndir í bælklingi (í pdf skjalinu.

 

Algengar spurningar og svör

Verkir eftir aðgerð: Búast má við að finna til verkja í aðgerðarfæti í 3-4 vikur. Meðan þú ert með verki getur verið nauðsynlegt að taka verkjalyf sem þú færð ávísað fyrir heimferð. Fylgja skal fyrirmælum lækna varðandi töku þessara lyfja. Þegar verkir minnka skaltu draga úr notkun verkjalyfja, t.d. með því að minnka skammta og fækka inntökum.  Athugaðu að þessum verkjalyfjum geta fylgt ýmsar aukaverkanir eins og hægðatregða, ógleði, svimi og magaóþægindi.

 

Hægðatregða: Ef hægðatregða verður í kjölfar aðgerðar er gott að drekka ríkulega af vökva og borða grófmeti eins og músli og sveskjur. Ef það dugar ekki til er hægt að leita ráða í næstu lyfjabúð og fá upplýsingar og ráðleggingar um lyf eins og Sorbitol og/eða rúmmálsaukandi duft, t.d. Husk eða Metamucil.

 

Hvenær má hefja vinnu?  Það fer eftir hvernig vinnu um er að ræða. Rétt er að ræða það við sérfræðing þinn. Algengt er að hefja aftur vinnu eftir 2-3 mánuði.

 

Akstur:  Rétt er að bíða með akstur fyrstu 6-8 vikurnar eða fram yfir endurkomu til sérfræðings.

 

íþróttir:  Best er að bíða með alla íþróttaiðkun fram yfir endurkomu til sérfræðings og ráðfæra sig við hann.

 

Heimilisstörf:  Þú getur sinnt léttum heimilisstörfum, en forðast skal störf sem fela í sér óæskilegan snúning og beygju á mjöðm.

 

Bað:  Mælt er með að nota sturtu. Ekki fara í baðker eða sundlaug fyrr en sár eru að fullu gróin. Ekki er ráðlegt að setjast í baðker fyrstu 3 mánuðina eftir aðgerð. 

 

Hve lengi á að nota hjálpartækin?  Mælt er með að nota þau fram að endurkomu til  sérfræðings.

 

Hve lengi þarf að nota hækjur? Það fer eftir þörfum hvers og eins. Athugið að hækjunni aðgerðarmegin er sleppt fyrst.

 

Hvenær má liggja á skornu hliðinni?  Þegar sár er gróið og þú treystir þér til þess. Þegar þú liggur á óskornu hliðinni þarf að nota púða á milli fóta í 6-8 vikur.

 

Krosslegja fætur:  Hætta því alfarið.

 

Almenn hreyfing og þjálfun eftir heimkomu:  Viðhalda venjubundnum hreyfingum og stunda gönguferðir. Ekki er ástæða til að fara í sjúkraþjálfun.

 

Kynlíf:  Bíða með það í 4-6 vikur. Mikilvægt er að huga vel að þægilegri stöðu og nota stellingar sem ekki krefjast mikillar beygju í mjöðm á skornu hliðinni.

 

Utanlandsferðir:  Eftir gerviliðsaðgerð þarf að taka sérstaklega fram við vopnaleit í flugstöðvum að þú sért með gervilið í mjöðm. Fáðu frekari upplýsingar og skírteini hjá lækni sem gerði aðgerðina eða læknaritara HVE Akranesi.

 

Forvarnir: Um alla framtíð verður þú að taka sýklalyf við tannaðgerðir, einnig við blöðruspeglanir og blöðruhálsaðgerðir.

 

Helstu fylgikvillar aðgerðar geta verið

Sýking í skurðsári:  Einkenni eru auknir verkir, roði, útferð eða vilsa úr sári og hækkaður líkamshiti (yfir 38°C).

 

Þvagfærasýking:  Einkenni eru illa lyktandi þvag, tíð þvaglát, sársauki við þvaglát og hækkaður líkamshiti.

 

Blóðtappi í fótum:  Einkenni eru auknir verkir og bólga í fæti, bjúgur á fæti og hitavella (minna en 38°C).

 

Blóðtappi í lungum:  Einkenni eru andþyngsli, hjartsláttur og hækkaður líkamshiti.

Liðhlaup í mjöðm:  Einkenni leyna sér ekki, því fylgir mikill sársauki. Mjöðmina þarf að setja aftur í lið sem fyrst.

 

Við öll ofangreind einkenni ber að hafa samband við lækni strax.

 

Hægt er að hafa samband við deildarlækni á SHA í síma 432 1110, þinn heimilislækni, lækna á bráðamóttöku eða læknavakt. 

 

Ef þú ert í vafa eða þörf er fyrir frekari upplýsingar er þér velkomið að hafa samband við HVE Akranesi.

 

Sími handlækningadeildar er 432 1110

Sími sjúkraþjálfara 432 1166 og 432 1167

Sími iðjuþjálfa 432 1160

 

Með kveðju,

starfsfólk handlækningadeildar

og sjúkra-og iðjuþjálfunar á HVE Akranesi

 

 

Unnið af iðjuþjálfum, sjúkraþjálfurum og hjúkrunarfræðingum (SÁ, IÓ, IV, GK) á HVE Akranesi í des. 2009. Samþykkt af Jóni Ingvari Ragnarssyni, bæklunarlækni á HVE
Endursk. Í jan. 2011
HVE/rmbæk52
 

   

Heilbrigðisstofnun Vesturlands - Aðalskrifstofur Merkigerði 9, 300 Akranes - S.432 1000 - Kt. 630909-0740 - hve@hve.is - Vefstjóri HVE